Ricardo Sanchez, fyrrum yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Írak, segir bandaríska ráðamenn getulausa og spillta og að þeir hafi komið Bandaríkjaher út í fen í Írak sem engin leið sé sjáanleg út úr. Þá segir hann að þeir hefðu verið kærðir fyrir vanrækslu fyrir herrétti væru þeir í hernum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Það er engin spurning að Bandaríkin eru að upplifa martröð sem enginn endir er á", sagði hann við blaðamenn í Arlington í nágrenni Washington í gær.
Sanchez, sem lét af störfum á síðasta ári í kjölfar Abu Ghraib hneykslisins, segir Bandaríkjamenn í besta falli geta komist hjá algerum ósigri í Írak. Þá sagði hann vanmat og vanrækslu bandarískra ráðamanna í kjölfar falls Saddams Husseins Íraksforseta hafa stuðlað að þeirri ógnaröld sem nú ríkir í Írak og að fjölgun hermanna þar í upphafi þessa árs hafi verið örvæntingarfull tilraun til að bæta fyrir áralanga vanrækslu.
Talsmaður Hvíta hússins sagði er hann var spurður um ummæli Sanchez að staðan í Írak sé erfið og að unnið væri að því að bæta hana.