Búrma: Blaðamaðurinn bar ábyrgð á eigin dauða

Dauða Nagai mótmælt í Japan.
Dauða Nagai mótmælt í Japan. Reuters

Herstjórnin í Búrma tilkynnti í dag að japanski blaðamaðurinn, Kenji Nagai sem var drepinn í aðgerðum lögreglu og hers gegn mótmælendum bæri sjálfur ábyrgð á eigin dauða þar sem hann hafði verið á hættusvæði og sett sjálfan sig í hættu.

Nagai sem var fimmtugur starfaði sem myndatökumaður fyrir japönsku fréttastofuna APF og var hann meðal þeirra sem létust í aðgerðum gegn mótmælendum í Búrma í lok september.

Herstjórnin lýsti því yfir að það hefði verið slys að hann hefði verið skotinn. „Hann var ekki sérlegt skotmark,” stóð í leiðara dagblaðsins Hið Nýja Ljós Myanmar sem er málgagn herstjórnarinnar.

„Sú staðreynd að japanski blaðamaðurinn var staddur meðal mótmælendanna jafngildir því að bjóða hættunni heim,” stóð jafnframt.

Í leiðaranum var einnig tekið fram að Nagai hefði komið inn í landið sem ferðamaður en hefði átt að hafa sérstaka vegabréfsáritun fyrir blaðamenn og að ef hann hefði hagað sér eins og ferðamaður þá hefði hann ekki orðið fyrir skakkaföllum.

Myndskeið af dauða Nagai fór um allan heimi og þar virðist hermaður skjóta hann af stuttu færi. Japanska lögreglan segir að hann hafi látist vegna blóðmissis því ein kúla hið minnsta fór í gegnum nýra.

Utanríkisráðherra Japans, Masahiko Komura tilkynnti fyrr í þessum mánuði að Japan íhugaði að draga úr fjárhagslegri aðstoð við Búrma í kjölfar dauða Nagai en Japan er það land sem veitir Búrma hvað mesta þróunaraðstoð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert