Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Hillary Clinton, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi demókrata á næsta ári sætir nú gagnrýni fyrir tvískinnungshátt eftir að hún gagnrýndi George W. Bush Bandaríkjaforseta fyrir að leggja ekki meiri áherslu á að fara samningaleiðina gagnvart Írönum í kjarnorkumálinu.
Clinton greiddi nýlega atkvæði með því í öldungadeildinni að íranski byltingarherinn yrði skilgreindur sem hryðjuverkastofnun en gagnrýnendur þeirrar skilgreiningar segja hana vera þátt í undirbúningi Bandaríkjastjórnar að hernaðaraðgerðum gegn Írönum.
Hún staðhæfir hins vegar sjálf að engin mótsögn liggi í orðum hennar og gerðum. „Þeir styðja það að vopn séu send til Íraks sem notuð eru gegn hermönnum okkar,” segir hún. Þá segir hún yfirlýsinguna opna þannig að hún bindi ekki hendur bandarískra yfirvalda gangi þeir til samningaviðræðna við Írana.
Spurð að því hvað hún myndi gera í sporum Bandaríkjaforseta sagðist hún þegar í stað hefja samningaviðræður við þá enda telji hún að slíkar viðræður myndu auka mjög trúverðugleika Bandaríkjanna í Miðausturlöndum. Þá sagði hún viðræður ekki síst mikilvægar til að gefa refsiaðgerðum trúverðugleika komi til þeirra.
„Ég tel Bush forseta hafa gert mistök með því að fara ekki á leiðina og með því að hafa ekki samningamenn okkar að stöðugt að störfum á svæðinu vegna málsins,” sagði hún