Óvíst hvort af Íransferð Pútíns verður

Vladimir Pútín Rússlandsforseti með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í morgun.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í morgun. AP

Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Pútíns Rússlandsforseta, neitaði að greina frá því í dag hvort forsetinn muni fara til Írans í kvöld eins og til hefur staðið en áður hafði Peskov sagt að ferðaáætlanir forsetans hefðu ekki breyst í kjölfar frétta af því að upp hefði komist um áformað morðtilræði gegn honum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Ég get hvorki staðfest né neitað því að af heimsókninni verði,” sagði hann og neitaði að segja nokkuð um það hvort óvissa um málið tengdist fréttum af áformuðu morðtilræði.

Pútín er nú í Wiesbaden í Þýskalandi en þaðan hefur staðið til að hann flygi til Írans í kvöld. Verði af ferð Pútíns til Írans verður það fyrsta heimsókn rússnesks leiðtoga til landsins frá því Joseph Stalín heimsótti landið árið 1943.

Interfax fréttastofan hefur eftir rússneskum leyniþjónustumönnum að upp hafi komist um fyrirhugað sjálfsvígssprengjutilræði gegn Pútín í Teheran en írönsk yfirvöld segja engan fót fyrir fréttunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert