Þúsundir hjúkrunarfræðinga í Finnlandi boða uppsagnir

Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigðisþjónustuna í Finnlandi komi …
Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigðisþjónustuna í Finnlandi komi til hópuppsagna hjá hjúkrunarfræðingum. AP

Tæplega 13.000 hjúkrunarfræðingar og aðrir hjúkrunarstarfsmenn í Finnlandi hafa hótað að segja upp störfum í næsta mánuði ef ekkert samkomulag næst í kjaraviðræðum þeirra við atvinnurekendur. Frá þessu greindu forystumenn stéttarfélags hjúkrunarfræðinga í dag.

Stéttarfélag starfsmanna í heilbrigðis- og félagsþjónustu segir að a.m.k. 12.800 starfsmenn hafi undirritað pappíra þess efnis að þeir muni láta af störfum. Verði þetta raunin myndi þetta hafa alvarleg áhrif á sjúkrahús í flestum stærstu borgum landsins, þ.á.m. í Helsinki, höfuðborg landsins.

„Það er mjög sorglegt þegar sérþjálfaðir heilbrigðisstarfsmenn þurfa að verja réttlætanleg markmið sín með svo róttækum hætti,“ sagði Jaana Laitinen-Pesola, formaður stéttarfélagsins.

„Fjöldauppsagnir sem þessar eru mjög alvarlegar, og ef þetta verður raunin, mun þetta lama allt heilbrigðiskerfið okkar.“

Kjaraviðræður milli stéttarfélagsins og atvinnurekenda fóru út um þúfur fyrr í þessum mánuði. Ný samningalota mun hefjast síðar í dag.

Stéttarfélagið krefst 24% launahækkunar fyrir félagsmenn sína á næstu tveimur árum.

Yfirmenn í heilbrigðisgeiranum hafa varað við því á undanförnum árum að stöðugur flótti hjúkrunarfræðinga frá Finnlandi til Svíþjóðar og Noregs, þar sem launin eru hærri, gætu haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigðisþjónustuna í Finnlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert