Vladimir Putin, forseti Rússlands sagði að Rússland myndi veita Írönum aðstoð í deilu þeirra við vesturlönd um kjarnorkuáætlun landsins. Putin er nú staddur í fyrstu heimsókn rússnesks leiðtoga til Íran síðan Stalín sótti landið heim í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Putin sagði að friðsamleg „kjarnorkustarfsemi” ætti rétt á sér og varaði vesturlönd gegn því að beita afli til að leysa þessa deilu.
Á fréttavef BBC kemur fram að Putin færðist undan því að svara nákvæmum spurningum um það hvort Rússland myndi sjá Íran fyrir kjarnorkueldsneyti fyrir Bushehr kjarnorkuverið sem verið er að reisa í Íran með rússneskri aðstoð.