Anne Enright, sem í vikunni hlaut hin virtu Mann Booker bókmenntaverðlaun, hefur lýst því yfir að hún taki þátt í þeirri alþjóðlegu íþrótt að leggja fæð á Kate og Gerry McCann, foreldra bresku stúlkunnar Madeleine sem hvarf sporlaust í Portúgal í maí. Í blaðagrein sem Engright birti um viðbrögð almennings við málnu í upphafi þessa mánaðar segist hún vera foreldrunum reið fyrir að hafa neitað að viðurkenna að hugsanlegt væri að stúlkan væri látin. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
„Það er orðin alþjóðleg íþrótt að kunna illa við McCann hjónin. „Ég kunni illa við þau á undan flestum öðrum (og er ekki stolt af því) skrifar hún í greininni sem birtist í London Review of Books. „Ég hélt ég væri þeim reið fyrir að hafa skilið börn sín eftir ein en í raun er ég reið yfir því að þau skuli ekki hafa viðurkennt að hugsanlegt væri að dóttir þeirra væri látin.”
Í greininni segist Enright ekki vera sérlega í nöp við „hina fögru" Kate McCann en að framkoma Gerry og það hvernig hann hafi reynt að stýra rannsókn málsins hafi stuðað hana þeim mun meira.
„Hin sorglega staðreynd er sú að hann talar ekki um það sem hann og eiginkona hans eru að ganga í gegn um,” segir hún. „Tungutak hans hæfir betur framkvæmdastjóra fyrirtækis en örvæntingarfulls föður. Það getur vel verið að hann sé bara svona gerður. Að hann hafi ekki meira að gefa umheiminum eins og stendur. Við erum hins vegar vön því að fyrirtæki reyni að blekkja okkur á einn eða annan hátt. Það er sameiginleg taugaveiklun okkar.”