Hætt við fyrirlestur vísindamanns eftir að hann lét umdeild ummæli flakka

Dr. James Watson.
Dr. James Watson.

Vísindasafnið í Bretlandi hefur hætt við fyrirlestur erfðafræðings eftir að hann fullyrti að þeldökkir einstaklingar væru ekki eins gáfaðir og hvítt fólk. Dr. James Watson, sem hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir þátt sinn í að uppgötva uppbyggingu DNA-erfðaefnisins, átti að halda fyrirlesturinn á morgun.

Safnið hefur hinsvegar hætt við viðburðinn. Forsvarsmenn safnsins segja að skoðanir Watson gangi langt út fyrir það sem ásættanlegt er.

Watson er staddur í Bretlandi til þess að kynna nýja bók sína.

Í viðtali við breska blaðið The Sunday Times, sagði Watson, sem er 79 ára, að hann væri mjög svartsýnn á framtíðhorfurnar í Afríku „vegna þess að allar félagslegar stefnur okkar byggja á þeirri staðreynd að þeir séu jafngáfaðir okkur - en allar rannsóknir segja annað“.

Hann bætti því við að hann vonaðist til þess að allir væru jafnir en að „fólk sem þarft að glíma við svarta starfsmenn kemst að því að þetta er ekki rétt“.

Þetta kemur fram á vef BBC. Talsmaður Vísindasafnsins segir að vitað sé að þekktir vísindamenn eigi það til að segja eitthvað sem þykir vera umdeilt. Hann segir jafnframt að safnið komi sér ekki hjá því að taka á umdeildum umræðuefnum.

„Okkur finnst hinsvegar að Watson hafi farið yfir strikið í ásættanlegri umræðu og af þeim sökum höfum við hætt við fyrirlesturinn.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Watson segir eitthvað mjög umdeilt. Hann hefur t.d. látið hafa eftir sér að konur eigi að hafa rétt til þess að láta eyða fóstri ef rannsóknarniðurstöður sýna fram á að barnið verði samkynhneigt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert