Hóta að fara naktar í mótmælagöngu

Mörg hundruð vændiskonur í Bólivíu eru reiðubúnar að berjast gegn siðsemdarátaki er beinist gegn starfsemi þeirra með því að fara naktar í mótmælagöngu um götur höfuðborgarinnar, La Paz, að því er talskona þeirra greindi frá í dag. Reiður múgur vann í síðustu viku mikil skemmdarverk á ölstofum og vændishúsum í úthverfi borgarinnar.

Í kjölfar óeirðanna í síðustu viku ákváðu bólivísk yfirvöld að loka yfir eitt þúsund vændishúsum í úthverfinu, El Alto. Skipuleggjendur siðsemdarátaksins hafa krafist þess að borgaryfirvöld lokuðu fjölmörgum vændishúsum og fylgdu eftir banni við að fólk undir lögaldri ætti þar viðskipti. Einnig var þess krafist að tryggt yrði að vændishús væru hvergi nærri kirkjum, skólum og sjúkrahúsum.

Lily, talskona vændiskvennanna, hótaði því að þær myndu „fara naktar í mótmælagöngu“ og ekki mæta í opinbert heilsueftirlit ef ekki yrði látið af aðgerðum gegn starfsemi þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka