Meintur barnaníðingur dæmdur í 12 daga varðhald í Thaílandi

Meintur barnaníðingur sem handtekinn var í Thaílandi í gær var í dag úrskurðaður í að minnsta kosti tólf daga gæsluvarðhald, en hann á ákæru yfir höfði sér. Dómari í Bankok kvað upp úrskurðinn, en varðhaldið kann að verða framlengt í 84 daga. Verði maðurinn dæmdur sekur gæti hann hlotið tuga ára fangelsisdóm.

Maðurinn er 32 ára kanadískur kennari að nafni Christopher Paul Neil. Lögregla hefur leitað hans í þrjú ár, eftir að lögreglan í Þýskalandi fann hundruð mynda á netinu er sýndu mann hafa kynmök við asíska drengi. Andlit mannsins var brenglað á myndunum.

Þýska lögreglan leiðrétti myndina af manninum, og í síðustu viku greip Alþjóðalögreglan, Interpol, til þess örþrifaráðs að birta myndina af manninum og biðja um aðstoð við leitina að honum. Myndir úr myndavél tollvarða á Bankok-flugvelli sýndu Neil koma þangað, og í kjölfarið var mynd af honum birt í thaílenskum fjölmiðlum, og fékk lögreglan fjölda ábendinga í kjölfarið um hvar hann væri að finna.

Þegar lögreglan handtók Neil veitti hann enga mótspyrnu. Hann hefur neitað því að hafa gert nokkuð rangt. Rannsókn á máli hans kann að taka um mánuð, og í kjölfarið geta réttarhöld hafist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert