Frelsuð eftir 70 ára vist á stofnunum

Öldruð bresk kona hef­ur loks fengið frelsi eft­ir að hafa í 70 ár verið vistuð á stofn­un­um gegn vilja sín­um en hún var upp­haf­lega dæmd til vist­ar á geðsjúkra­húsi 15 ára göm­ul eft­ir að hafa verið sökuð um smáþjófnað sem hún raun­ar framdi ekki.

Sagt er frá þessu í breska blaðinu Sunday Times í dag. Kon­an, sem heit­ir Jean Gam­bell og er 85 ára að aldri, var árið 1937 dæmd til vist­ar á stofn­un í sam­ræmi við geðveikra­lög frá ár­inu 1890. Gam­bell var sökuð um að hafa stolið nokkr­um skild­ing­um af lækna­stofu þar sem hún starfaði við ræst­ing­ar.

Þótt pen­ing­arn­ir fynd­ust síðar var Gam­bell flutt á milli geðsjúkra­húsa næstu ára­tug­ina og missti sam­bandið við fjöl­skyldu sína, sem taldi hana vera látna. Ný­lega var kon­an flutt á hjúkr­un­ar­heim­ili í Macc­les­field og þaðan var send­ur spurn­ingalisti á nafn og heim­il­is­fang móður henn­ar. Dav­id bróðir Jean, sem enn býr í húsi móður þeirra í Mers­eysi­de, fékk spurn­ingalist­ann í hend­ur og ætlaði að henda hon­um en sá þá nafn syst­ur sinn­ar á plagg­inu.

„Ég gerði mér grein fyr­ir því að syst­ir mín var enn á lífi. Ég hringdi strax í hjúkr­un­ar­heim­ilið og þeir staðfestu að syst­ir mín var þar," hef­ur blaðið eft­ir Dav­id, sem er 63 ára. Hann og Alan bróðir hans fóru til hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins. Þeir höfðu séð syst­ur sína síðast þegar þeir voru ung­ir dreng­ir og henni var leyft að heim­sækja fjöl­skyldu sína í fylgd gæslu­manna á hæl­inu þar sem hún var þá vistuð.

Á hjúkr­un­ar­heim­il­inu var bræðrun­um sagt að syst­ir þeirra væri heyrn­ar­laus, gæti aðeins tjáð sig skrif­lega og ólík­legt væri að hún myndi eft­ir þeim.

„Lít­il kona, sem studdi sig við tvo göngustafi, kom inn," seg­ir Alan við blaðið. „Hún horfði á okk­ur og hrópaði: Alan, Dav­id. Svo faðmaði hún okk­ur að sér. Þetta var afar til­finn­ingaþrung­in stund."

Bræðurn­ir vörðu bernsk­unni að mestu leyti á munaðarleys­ingja­hæl­um þar sem for­eldr­ar þeirra voru afar fá­tæk­ir. Þeir sögðust hafa kom­ist að því síðar, að faðir þeirra reyndi á sín­um tíma að fá dótt­ur sína lausa af geðsjúkra­húsi í Macc­les­field en án ár­ang­urs þar sem nauðsyn­leg skjöl um hana fund­ust ekki. Jean reyndi eft­ir það lengi að sann­færa fólk um að hún ætti fjöl­skyldu en eng­inn trúði henni.

Fé­lags­mála­yf­ir­völd í Macc­les­field hafa hafið rann­sókn á mál­inu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert