Öldruð bresk kona hefur loks fengið frelsi eftir að hafa í 70 ár verið vistuð á stofnunum gegn vilja sínum en hún var upphaflega dæmd til vistar á geðsjúkrahúsi 15 ára gömul eftir að hafa verið sökuð um smáþjófnað sem hún raunar framdi ekki.
Sagt er frá þessu í breska blaðinu Sunday Times í dag. Konan, sem heitir Jean Gambell og er 85 ára að aldri, var árið 1937 dæmd til vistar á stofnun í samræmi við geðveikralög frá árinu 1890. Gambell var sökuð um að hafa stolið nokkrum skildingum af læknastofu þar sem hún starfaði við ræstingar.
Þótt peningarnir fyndust síðar var Gambell flutt á milli geðsjúkrahúsa næstu áratugina og missti sambandið við fjölskyldu sína, sem taldi hana vera látna. Nýlega var konan flutt á hjúkrunarheimili í Macclesfield og þaðan var sendur spurningalisti á nafn og heimilisfang móður hennar. David bróðir Jean, sem enn býr í húsi móður þeirra í Merseyside, fékk spurningalistann í hendur og ætlaði að henda honum en sá þá nafn systur sinnar á plagginu.
„Ég gerði mér grein fyrir því að systir mín var enn á lífi. Ég hringdi strax í hjúkrunarheimilið og þeir staðfestu að systir mín var þar," hefur blaðið eftir David, sem er 63 ára. Hann og Alan bróðir hans fóru til hjúkrunarheimilisins. Þeir höfðu séð systur sína síðast þegar þeir voru ungir drengir og henni var leyft að heimsækja fjölskyldu sína í fylgd gæslumanna á hælinu þar sem hún var þá vistuð.
Á hjúkrunarheimilinu var bræðrunum sagt að systir þeirra væri heyrnarlaus, gæti aðeins tjáð sig skriflega og ólíklegt væri að hún myndi eftir þeim.
„Lítil kona, sem studdi sig við tvo göngustafi, kom inn," segir Alan við blaðið. „Hún horfði á okkur og hrópaði: Alan, David. Svo faðmaði hún okkur að sér. Þetta var afar tilfinningaþrungin stund."
Bræðurnir vörðu bernskunni að mestu leyti á munaðarleysingjahælum þar sem foreldrar þeirra voru afar fátækir. Þeir sögðust hafa komist að því síðar, að faðir þeirra reyndi á sínum tíma að fá dóttur sína lausa af geðsjúkrahúsi í Macclesfield en án árangurs þar sem nauðsynleg skjöl um hana fundust ekki. Jean reyndi eftir það lengi að sannfæra fólk um að hún ætti fjölskyldu en enginn trúði henni.
Félagsmálayfirvöld í Macclesfield hafa hafið rannsókn á málinu.