Aðstoðarborgarstjóri Delhi, höfuðborgar Indlands, lést í gær af sárum sem hann hlaut er hann féll af svölum við heimili sitt er hann reyndi að verjast hópi smáapa sem réðst á hann á laugardag. Árásargjarnir apar hafa lengi verið vandamál í borginni en þeir hafa m.a. ráðist í hópum inn í opinberar byggingar og hof í leit að æti og krafðist hæstiréttur landsins þess á síðasta ári að borgaryfirvöld leituðu lausnar á vandanum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Ein þeirra lausna sem reynd hefur verið er að þjálfa stærri apa til að fæla villtu apana á brott. Þá starfar hópur manna við það í borginni að veiða apa og flytja þá þaðan á brott. Ekki hefur hins vegar verið gripið til þess ráðs að drepa apana þar sem hindúar líta á þá sem táknmynd guðsins Hanuman.