Hillary Clinton hefur náð miklu forskoti á aðra frambjóðendur, sem keppa um að verða útnefndir forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins en hún er einnig efst á lista yfir þá frambjóðendur, sem kjósendur segjast aldrei myndu kjósa.
Samkvæmt könnun, sem Zogby stofnunin hefur gert, segist helmingur skráðra kjósenda ekki geta hugsað sér að greiða Hillary atkvæði. Í samskonar könnun í mars var þetta hlutfall 46% og hefur því hækkað.
Eldri kjósendur voru almenn andsnúnari Clinton, sem freistar þess að verða fyrsta konan í embætti Bandaríkjaforseta. 59% kjósenda 65 ára og eldri sögðust ekki geta hugsað sér að kjósa Clinton.
37% þátttakenda í könnuninni sögðust aldrei myndu kjósa Barack Obama, sem sækist einnig eftir útnefningu sem forsetaefni demókrata.
Ef spurt var um frambjóðendur repúblikana sögðust 43% aldrei myndu kjósa Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóra New York, og 42% sögðust ekki geta hugsað sér að greiða Mitt Romney, ríkisstjóra Massachusetts, atkvæði.
Könnunin var gerð 11.-15. október á netinu. Þátttakendur voru 9718 talsins og skekkjumörk voru 1%.