„McCann-hjónin fórnarlömb hræðilegra galdraofsókna"

Kate og Gerry McCann.
Kate og Gerry McCann. AP

Stevens lávarður, fyrrum yfirmaður Lundúnalögreglunnar, segir Kate og Gerry McCann, foreldra bresku stúlkunnar Madeleine McCann, vera fórnarlömb hræðilegra galdraofsókna. Þá segir hann engar haldgóðar vísbendingar vera um það að hjónin hafi valdið dauða dóttur sinnar líkt og lögregla í Portúgal hefur haldið fram. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Stevens segir lögreglu í Portúgal hafa klúðrað rannsókn málsins strax í upphafi og því hafi rannsóknin engan árangur borið. Þá segir hann útilokað að hjónin verði nokkru sinni ákærð vegna málsins í Bretlandi.

„Það væri hræðilegt réttarmorð yrðu þau ákærð í tengslum við dauða hennar hér í landi,” segir hann. „Ég hef verið háttsetur innan lögreglunnar í þrjátíu ár og ég hef aldrei á ævi minni séð aðrar eins galdraofsóknir eða ásakanir byggðar á jafn haldlausum sönnunargögnum”

Stevens segir að lögregla í Portúgal hefði strax í upphafi átt að rannsaka hugsanlegan þátt hjónanna í hvarfi dóttur sinnar og að hefði það verið gert hefðu þau sennilega strax verið hreinsuð af öllum grun. „Mistök lögreglunnar eru þeirra harmleikur,” segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert