Yfirvöld í Bretlandi segja offituvanda nútímans jafn stórt vandamál og loftslagsbreytingar en ný könnun bendir til þess að verði ekki gripið til stórfelldra aðgerða i málinu eigi rúmlega helmingur Breta við offitu að stríða árið 2050. Sir David King, sem fór fyrir rannsókninni, segir hluta af vandanum felast í því að hann hafi fram til þessa ekki verið tekinn alvarlega sem samfélagslegt vandamál. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
„Við verðum að berjast gegn því almenna viðhorfi að fólk sem á við offitu að stríða sé óvenjulega gráðugt eða kærulaust. Sannleikurinn er sá að þetta fólk hegðar sé á eðlilegan hátt. Vandinn liggur í samfélaginu.” segir hann.
„Í samfélagi okkar er það þannig að fæðan er mjög hitaeiningarík. Hún hefur mikið sykur og fituinnihald og er auk þess mjög ódýr. Samfélagið ýtir undir það að fólk borði mikið auk þess sem fólk situr nú mikið meira við vinnu sína en á nokkrum öðrum tímapunkti í mannkynssögunni.”
Dr. Susan Jebb, fulltrúi breskra yfirvalda í rannsóknarhópnum, tekur í sama streng og segist furða sig á því hversu mörgum takist að halda sig í kjörþyngd miðað við þessar aðstæður.
Samkvæmt rannsókninni, sem er samstarfsverkefni fjölda rannsóknarstofnanna verða 60% karla, 50% kvenna og 25% barna í Bretlandi of feit árið 2050. Þá er bent á það í niðurstöðum könnunarinnar að útreikningar bendi til þess að reykingar stytti lífslíkur fólks um tíu ár og að offita stytti þær um 13 ár.