Lögregluforingi í Brussel hefur óskað eftir því við undirmenn sína að þeir láti það vera að heimsækja vændishús og drekka áfengi á meðan þeir eru á vakt. Þetta kemur fram í belgíska dagblaðinu La Derniere-Heure í dag.
Að sögn talsmanns lögreglunnar er í greininni sagt frá bréfi sem lögreglustjórinn í Saint-Josse sendi á starfsmenn sína vegna orðrómi um stjórnlausa hegðun ákveðinna lögregluþjóna í úthverfinu Saint-Josse. Í samtali við AFP fréttastofuna segir talsmaður lögreglunnar að ekkert sé hæft í orðróminum um að þeir hafi brotið af sér í vinnutímanum.
Í frétt La Derniere-Heure er birt bréf sem Erwin Renard, lögreglustjóri í Saint-Josse, sendi á undirmenn sína þar sem hann minnir þá á þær reglur sem gilda um lögreglumenn á vakt. Í bréfinu segir Renard að reglurnar hafi verið brotnar á meðan hann var í veikindaleyfi. Segir Renard í bréfinu að einhverjir starfsmenn telji að vinnutímann megi nýta í drykkju á áfengum drykkjum ef ekkert annað drykkjarhæft er í boði, taka þátt í íþróttum, heimsækja vændishús eða nuddstofur og komast í náin kynni við nágranna sína þegar þeir eru á vakt. Varar hann starfsmenn sína við því að slíkt verði ekki liðið þar sem lögreglan njóti ekki virðingar nema hún sýni gott fordæmi. Í umdæmdi Renard er að finna helsta Rauða hverfi borgarinnar.