Blair kann að verða fyrsti forseti Evrópusambandsins

Tony Blair.
Tony Blair. Reuters

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna eru sammála um að skipa þurfi fastan forseta sambandsins, sem m.a. hafi það hlutverk að stjórna leiðtogafundum þess, og eru nú hafnar umræður um hvern skuli skipa. Þykir Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, koma sterklega til greina.

Frá þessu greinir fréttaritari Aftenposten í Brussel. Segir hann að forsetinn verði kosinn til tveggja og hálfs árs í senn, og geti sami maður setið tvö kjörtímabil. Fyrsti forsetinn verði kosinn 2009. Sá sem fyrir valinu verði muni að miklu leyti ráða því hver þýðing embættisins verði.

Þetta var meðal þess sem leiðtogar ESB-ríkjanna komust að samkomulagi um á fundi sínum í Lissabon um helgina. Forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, José Manuel Barroso, hefur ekki verið sérstakur fylgismaður þess að stofnað verði nýtt forsetaembætti, og mun ekki hafa áhuga á að taka það að sér.

Fleiri en Blair hafa verið nefndir til sögunnar, þ.á m. Anders Fogh Rasmussen og Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur sagt, að Blair yrði góður forseti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert