NASA vill ekki birta niðurstöður rannsóknar um flugöryggi

Svonefnd flugatvik í Bandaríkjunum eru mun algengari en áður var …
Svonefnd flugatvik í Bandaríkjunum eru mun algengari en áður var talið, samkvæmt rannsókn NASA. Reuters

Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, vill ekki birta niðurstöður rannsóknar á flugöryggi í Bandaríkjum þar sem stofnunin vilji ekki hræða flugfarþega. NASA segist þó vera að endurskoða þessa ákvörðun eftir að AP fréttastofan birti fréttir um rannsóknina en hún sýnir, að svonefnd flugatvik eru mun algengari en áður var talið.

NASA safnaði saman upplýsingunum með því að hafa samband við 24 þúsund flugmenn á fjögurra ára tímabili. Rannsókninni, sem kostaði 8,5 milljónir dala, lauk á síðasta ári en NASA hefur neitað að birta niðurstöðurnar opinberlega.

AP fréttastofan hefur í 14 mánuði reynt að fá upplýsingar frá NASA um rannsóknina en án árangurs. Fréttastofan hefur hins vegar nú birt fréttir af rannsókninni og hefur þær eftir ónafngreindum heimildarmanni, sem sagður er þetta vel til mála. NASA segist nú vera að endurskoða afstöðu sína. AP segir að NASA hafi í síðustu viku skipað fyrirtækinu, sem sá um rannsóknarviðtölin, að eyða öllum gögnum um rannsóknina úr tölvum sínum. Bandaríkjaþing tilkynnti hins vegar í gær að rannsókn yrði hafin á málinu og bannaði að gögnum yrði eytt.

AP segir, að rannsóknin sýni, að fuglar rekist á flugvélar tvöfalt oftar en áður var talið og sama megi segja um atvik þegar flugvélar fljúgi of nálægt hver annarri og atvik á flugbrautum.

Þá hafi einnig mun fleiri flugmenn en áætlað var sagt að þeir hafi fengið fyrirskipanir um hætta skyndilega við lendingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert