Samvinna milli Dana og nasista um lyfjatilraunir á föngum

Buchenwald fangabúðirnar eru skammt frá Weimar.
Buchenwald fangabúðirnar eru skammt frá Weimar. Reuters

Danskur sagnfræðingur heldur því fram í nýrri bók, að dönsk tilraunalyf hafi verið prófuð á 26 föngum í fangabúðum nasista í Buchenwald í mars árið 1944 með vitund og vilja þáverandi ríkisstjórnar Danmerkur. Þrír af föngunum létust eftir tilraunina.

Bókin, sem er eftir Henrik Tjørnelund og heitir Medisin uten grenser, kemur út um helgina. Segir Tjørnelund að samstarf Dana og þýskra nasista hafi verið umfangsmikið og langvarandi.

Danska lyfjastofnunin átti samvinnu við þýskar fangabúðir allt frá því Þjóðverjar hertóku Danmörk í apríl 1940. Stofnunin gerði m.a. tilraunir með bóluefni gegn taugaveiki og lyfið var prófað á föngum í Buchenwald.

Vikulega áttu stjórnendur lyfjastofnunarinnar fundi með embættismanninum K. H. Kofoed, sem síðar varð bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra í Danmörku. Tjørnelund segir, að á þessum fundum hafi dönsk stjórnvöld fengið upplýsingar um lyfjatilraunirnar í Buchenwald.

Danska blaðið Politiken hefur fjallað nokkuð um bókina og hefur eftir Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, að þessar upplýsingar séu afar ógeðfelldar og sýni að samstarf danska stjórnende og þýska hernámsliðsins hafi verið enn meira en til þessa var talið.

Nokkrir danskir stjórnmálaleiðtogar krefjast þess nú að Fogh Rasmussen biðji ættingja fórnarlamba lyfjatilraunanna formlega afsökunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert