Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti í ræðu á danska þinginu klukkan 11 að íslenskum tíma, að þingkosningar fari fram 13. nóvember. Er það rúmu ári fyrr en kjörtímabilinu lýkur en síðustu kosningar fóru fram í febrúar 2005. Fréttaskýrendur segja, að Fogh Rasmussen vilji nýta sér að stjórnarflokkarnir standa nokkuð vel samkvæmt skoðanakönnunum.
Þannig er samanlagt fylgi Venstre og Íhaldsflokksins um 35% samkvæmt síðustu könnunum en fylgi Jafnaðarmannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, er um 25%. Ríkisstjórnin er minnihlutastjórn sem nýtur stuðnings Danska þjóðarflokksins. Hún tók við völdum í nóvember 2001 og hélt velli í þingkosningunum 2005.
Fogh Rasmussen sagði, þegar hann boðaði til kosninganna, að ríkisstjórnarflokkarnir stefni á áframhaldandi samstarf eftir kosningarnar og vilji fá skýrt umboð til ýmissa umbóta, sem til standi að gera á velferðarkerfi, skattalögum, lögum um umhverfismál og fleiri málum.
Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna hafa í morgun lýst yfir ánægju með kosningarnar. Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, sagði í dag að þetta væri rétti tíminn fyrir flokkinn að fara í kosningabaráttu og hann muni leggja áherslu á bætt velferðarkerfi frekar en skattalækkanir.
Anders Fogh Rasmussen er fæddur árið 1953 og er menntaður lögfræðingur frá háskólanum í Árósum. Hann var fyrst kjörinn á danska þingið 1978 og gegndi ráðherraembættum á árunum 1987 til 1992. Hann tók við embætti leiðtoga Venstre af Uffe Elleman-Jensen árið 1998 og myndaði fyrstu ríkisstjórn sína árið 2001.