Þrátt fyrir að flest ríki Bandaríkjanna hafi frestað aftökum fanga þar til Hæstiréttur kemst að niðurstöðu um hvort aftaka með bannvænni sprautu brjóti í bága við stjórnarskrá landsins þá hafa yfirvöld í Alabama ákveðið að slíkt gildi ekki um aftöku Daniels Siebert þar sem hann er dauðvona krabbameinssjúklingur.
Siebert, sem er 53. ára, verður tekinn af lífi á morgun þar sem yfirvöld óttast að hann muni deyja úr krabbameini úr brisi fljótlega. Daniel Siebert var dæmdur til dauða árið 1986 fyrir að hafa myrt tvær ungar konur og tvö börn á aldrinum fjögurra og fimm ára. Síðar játaði Siebert á sig fimmta morðið, að sögn ríkisstjóra Alabama, Rob Riley.
Lögmenn Sieberts hafa óskað eftir því að aftökunni verði frestað vegna þeirrar spurningar sem Hæstiréttur stendur frammi fyrir um hvort aftaka með bannvænni sprautu standist ákvæði stjórnarskrár en Riley neitar því. Segir Riley að með því sé dómnum breytt í lífstíðarfangelsi og það sé ekki refsingin sem Siebert var dæmdur til. „Afbrot hans er hryllilegt, hrottalegt og skelfilegt," að sögn Riley.