Rússneski „taflborðsmorðinginn" sakfelldur

Aleksandr Pitjúsjkin í réttarsal í Moskvu í sumar.
Aleksandr Pitjúsjkin í réttarsal í Moskvu í sumar. AP

Kviðdómur í Moskvu fann í dag rússneskan karlmann á fertugsaldri sekan um að hafa framið 48 morð. Það tók kviðdóminn aðeins þrjár stundir að komast að niðurstöðu en dómur verður kveðinn upp síðar. Morðin voru framin á fimm ára tímabili, flest í almenningsgarði í suðurhluta Moskvu. Maðurinn sagðist hafa stefnt að því að fremja 64 morð, eða jafn mörg og reitirnir á skákborðinu eru.

Maðurinn, sem heitir Alexandr Pitjúsjkin, sagðist hafa framið 63 morð en saksóknarar ákærðu aðeins fyrir 48 þar sem ekki þóttu vera nægar sannanir fyrir hendi til að ákæra fyrir fleiri morð.

Saksóknarar mæltu með því, að Pitjúsjkin verði dæmdur í ævilangt fangelsi og að fyrstu 15 árin verði hann hafður í einangrun. Dauðarefsing er enn í gildi samkvæmt rússneskum lögum en þar í landi hefur framkvæmd slíkra refsinga verið frestað ótímabundið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert