Sextíu og átta þorpsbúar í norðurhluta Namibíu voru lagðir inn á sjúkrahús eftir að hafa lagt sér sýktan hund til munns. Samkvæmt dagblaðinu The Namibian lét eigandi hundsins lóga honum eftir að hann smitaðist af dularfullum húðsjúkdómi og bað um að hræið yrði brennt en þorpsbúar í Oikokola þorpi hlustuðu ekki á þá bón og snæddu hundinn með íbúum úr nágrannaþorpinu Onepandaulo.
Þorpsbúarnir fengu meðferð á tveimur stærstu sjúkrahúsum héraðsins og hafa flestir þeirra náð sér að fullu.
Hundakjöt er talið vera mikið lostæti meðal þjóðflokka í Namibíu og hafa óskir dýraverndunarsinna verið virtar að vettugi.