Glæpasamtök upprætt sem seldu börn í kynlífsánauð

Lögreglan í Hollandi segist hafa upprætt glæpasamtök sem eru sögð hafa flutt börn frá Nígeríu til Vesturlandanna þar sem þau voru látin vinna sem kynlífsþrælar.

Að minnsta kosti 19 manns voru handteknir í Hollandi auk fimm annarra landa, s.s. í Bretlandi og Bandaríkjunum, segir á fréttavef BBC.

Þeir sem seldu börnin í kynlífsánauð eru sagðir hafa notað vúdúgaldra til að ná þeim á vald sitt áður en þeim var smyglað til útlanda. Að sögn lögreglu misnotuðu glæpasamtökin sér kerfi sem eru hugsuð fyrir hælisleitendur.

Talið er að tugir ungra Nígeríumanna, meirihlutinn stúlkur undir lögaldri, hafi verið seldir sem kynlífsþrælar.

Frá því í janúar 2006 hefur hollenska lögreglan unnið að rannsókn á hvarfi 140 nígerískra barna sem hurfu frá sérstökum miðstöðvum sem settar hafa verið upp fyrir hælisleitendur.

Að sögn lögreglunnar hafa sum börnin fundist, en þá unnu þau sem vændiskonur í Frakklandi, Ítaliu og á Spáni.

Þrettán voru handteknir í hollenskum borgum og bæjum, en sex, allt Nígeríumenn, voru handteknir í New York, Madrid, Dublin, Coventry og Antwerp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert