Sjö hundruð ára gömul kirkja hóf í dag för á nýjan samastað á einungis tveggja kílómetra hraða á klukkustund. Áfangastaðurinn er aðeins í 12 km fjarlægð, en ekki er von á kirkjunni þangað fyrr en eftir tæpa viku. Kirkjan er úr steini og vegur um 660 tonn.
Umræddrar kirkju - Emmauskirkjunnar - er fyrst getið í heimildum frá árinu 1297, en hún hefur staðið í bænum Heuersdorf í Þýskalandi, skammt frá Leipzig. En nú á að grafa brúnkolanámu þar sem bærinn hefur staðið, og því var ákveðið að færa kirkjuna.