Kynlífskúrsar fyrir kolanámuverkamenn

Þessi kolanámuverkamaður, sem kemur reyndar frá Spáni, er vonandi ánægður …
Þessi kolanámuverkamaður, sem kemur reyndar frá Spáni, er vonandi ánægður bæði heima hjá sér og í vinnunni. Reuters

Forleikur í ástarlífinu og tíðahvörf kvenna er á meðal þess sem ástralskir kolanámuverkamenn læra nú um á sérstökum námskeiðum. Tilgangurinn með þessu að reyna auka afkastagetu starfsmannanna.

Yfirmenn við Bugla-námuna, sem er norður af Sydney, segja að námskeiðin hjálpi starfsmönnunum betur að skilja eiginkonur sínar þannig að þeir verði bæði hamingjusamari og hraustari.

Xstrata námufyrirtækið segir að þetta hafi lukkast mjög vel. Í raun það vel að þeir ætla að senda verkamenn sem starfa við aðrar námur í landinu á námskeið sem þessi, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Í hverjum mánuði er umræðuefnið ólíkt, en meðal þess sem rætt hefur verið um er þreyta, næring og hjartasjúkdómar.

Yfirmennirnir segja að með því að kenna körlunum inn á tíðahvörf kvenna og mikilvægi forleiksins í tilhugalífinu þá lifi þeir heilbrigðara kynlífi sem leiðir til þess að þeir verða hamingjusamari og afköstin aukast.

„Við verðum að skoða lífstíl starfsmannanna okkar, og sjá til þess að þeir séu heilbrigðir og hraustir í vinnunni, en einnig að þeir séu heilbrigðir, hraustir og ánægðir heima hjá sér,“ sagði talsmaður Xstrata, James Rickards, í samtali við Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert