Áætlanir uppi um að Kaupmannahöfn verði rafbílaborg

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Hópur fjárfesta hefur staðið í viðræðum við dönsk stjórnvöld síðan í ágúst um að gera Kaupmannahöfn að mestu rafbílaborg Evrópu. Til stendur að koma upp allt að 500.000 hleðslustöðvum á bílastæðum, við vinnustaði og heimili og er vonast til að rafbílar verði komnir í almenna notkun um árið 2015. Berlingske Tidende segir frá þessu.

Samgönguráðherra Dana , Jakob Axel Nielsen, segist vona að tilraunin verði að áhrifaríku skrefi í átt að umhverfisvænni lifnaðarháttum Dana.

Ætlunin er að í landinu verði seldir rafbílar sem ekið geti allt að 150 kílómetra á einni hleðslu og að fjárfestarnir hagnist með því að selja raforku fyrir bílana á svipaðan hátt og bensínstöðvar. Dönsk stjórnvöld hafa tekið að sér að finna ódýra raforku og eru m.a. uppi hugmyndir um að nýta umframorku sem verður til þegar mjög vindasamt er og vindmyllur landsins framleiða meiri orku en þörf er á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka