Mynd birt af hugsanlegum ræningja Madeleine

Gerry og Kate McCann, með myndir af dóttur sinni Madeleine.
Gerry og Kate McCann, með myndir af dóttur sinni Madeleine. Reuters

Kate og Gerry McCann, foreldrar bresku stúlkunnar Madeleine McCann, hafa birt teiknaða mynd sem sýnir mann sem talið hugsanlegt að hafi rænt úr sumarleyfisíbúð fjölskyldu hennar í Portúgal í maí. Clarence Mitchell, talsmaður hjónanna, segir lögreglu í Portúgal hafa samþykkt birtingu myndarinnar sem talin er teiknuð af sérfræðingum bandarísku alríkislögreglunnar FBI eftir lýsingu Jane Tanner, vinkonu Kate og Gerry McCann. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Á myndinni sést grannur maður klæddur í brúnleit föt bera sofandi barn í fangi sér. Maðurinn, sem virðist vera á aldrinum 35 til 40 ára, er ljós á hörund með brúnleitt, axlarsítt og hirðuleysislegt hár. Barnið, sem virðist sofa, er klætt í hvít náttföt með bleiku munstri líkt og Madeleine var kvöldið sem hún hvarf.

Tanner er ein þeirra sem snæddi með McCann hjónunum á veitingastað í nágrenni sumarleyfisíbúðarinnar kvöldið sem Madeleine hvarf. Hún er sögð hafa séð umræddan mann ganga frá íbúð hjónanna þá um kvöldið án þess að gera sér grein fyrir mikilvægi þess sem hún sá fyrr en það var orðið um seinan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert