Þriggja ára fangelsi fyrir að henda hvolpi fram af svölum

Dómari í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum dæmdi karlmann í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa hent hvolpi fram af svölum er hann var að rífast við unnustu sína. Hvolpurinn, sem var í búri sem var bólstrað með mjúku áklæð,i fékk höfuðáverka við fallið og varð að aflífa hann.

Javon Patrick Morris, 22 ára, baðst fyrir dómi afsökunar á því að hafa varpað hundinum fram af svölunum í mars sl. og játaði að hafa gerst sekur um slæma meðferð á dýrum.

„Áttu við að hann henti hjálparlausu dýri niður af þriðju hæð í reiðikasti?" spurði dómarinn, Edward Cottingham, saksóknara áður en hann kvað upp úrskurðinn. Dómarinn, sem hefur átt níu hunda um ævina, sagðist neyðast til þess að beita harðri refsingu í málinu þar sem ekki sé hægt að skilja illvirki sem þetta.

Dæmdi hann Morris í fimm ára fangelsi, þar af tvö ár skilorðsbundið. Jafnframt var Morris gert að sækja ráðgjöf í að hemja skap sitt.

„Ég verð að senda þau skilaboð til allra hundavina að við verjum þá í dómsölum okkar," sagði dómarinn er hann kvað upp úrskurðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert