Eldsneytisframleiðsla úr matvælum „glæpur gegn mannkyninu"

ap

Jean Ziegler, sérfræðingur um réttindi til matvæla, sem starfar á vegum Sameinuðu Þjóðanna, fordæmdi í dag ræktun matvæla til framleiðslu á lífrænu eldsneyti og kallaði hana glæpi gegn mannkyninu. Ziegler segir að framleiðsla á lífrænu eldsneyti leiði til aukins hungurs og hvatti hann til þess að framleiðsla eldsneytisins verði bönnuð í fimm ár.

Ziegler telur að ef af þessu verði sé hægt að þróa tækni til að vinna eldsneyti úr landbúnaðarúrgangi, svo sem kornstönglum og bananalaufum, í stað þess að nota matvælin sjáld til að framleiða olíu.

Aukin framleiðsla á lífrænu eldsneyti er meðal annars til komin vegna tilrauna til að framleiða umhverfisvænna eldsneyti en hefðbundna olíu, þá eru Bandaríkjamenn afar áhugasamir um að finna aðrar leiðir til að svara orkuþörf sinni en aðkaupa eldsneyti af ríkjum sem ekki njóta trausts stjórnvalda þar í landi.

Ziegler sagði í ræðu sem hann hélt í höfuðstöðvum SÞ að framleiðslan hefði þegar stuðlað að hækkun matvælaverðs og að þessi þróun væri ávísun á hörmungar. Matvælaframleiðendur í Bandaríkjunum snúa sér nú í auknum mæli að ræktun korns sem svo er notað til að framleiða eldsneyti í stað hveitis og soja, sem ekki fæst eins gott verð fyrir.

Sérfræðingurinn er ekki sá eini sem hefur varað við þessari þróun, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) varaði í síðustu viku við því að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fátæka í heiminum að reiða sig á korn í eldsneytisframleiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka