Flokkur hófsamra í Svíþjóð, Moderata samlingspartiet, samþykkti í dag innan sinna raða að hann væri hlynntur því að hjónaband verði ekki lengur bundið við karl og konu samkvæmt lögum. Aðeins einn flokkur á þingi Svía, flokkur kristilegra demókrata, er nú andvígur því að lögunum verði breytt. Þetta kemur fram á fréttavef Dagens nyheter.
Moderata Samlingspartiet er stærsti stjórnarflokkurinn og er Fredrik Reinfeldt, leiðtogi flokksins forsætisráðherra. Reinfeldt var annar af tveimur þingmönnum flokksins sem greiddu atkvæði með því árið 1994 þegar samkynhneigðum var leyft að staðfesta samvistir sínar.