Cristina Fernandez kjörin forseti Argentínu

Útgönguspár gefa til kynna, að Cristina Fernandez de Kirchner, 46 ára gömul forsetafrú Argentínu, hafi verið kjörin forseti landsins í fyrri umferð forsetakosninga þar í landi í dag. Benda niðurstöðurnar til þess, að Fernandez hafi fengið 46,3% atkvæða í dag sem þýðir að ekki kemur til síðari umferðar. Er þetta í fyrsta skipti, sem kona er kjörin forseti í almennum kosningum í Argentínu.

Elisa Carrio, sem er fimmtug að aldri og fyrrum þingmaður, kemur næst með 24% atkvæða, samkvæmt útgönguspánni. Gert er ráð fyrir að fyrstu opinberu tölurnar verði birtar á miðnætti að íslenskum tíma.

Kosning var framlengd um klukkutíma í Buenos Aires í kvöld vegna mikillar kjörsóknar undir lokin. 27 milljónir manna voru á kjörskrá.

Verði þetta niðurstaðan mun Fernandez taka við embættinu af eiginmanni sínum, Nestor Kirchner, í desember. Kirchner, sem er 57 ára, hefur aðeins setið í forsetaembætti í eitt kjörtímabil en hann nýtur mikilla vinsælda í Argentínu. Hann hefur ekki upplýst hvers vegna hann hefur kosið að draga sig í hlé.

Fernandez hét því í kosningabaráttunni, að framfylgja stefnu eiginmanns síns en efnahagur Argentínu hefur batnað til muna frá því hann tók við embætti 2001.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert