Fataframleiðandinn Gap hefur innkallað barnafatnað eftir að breska dagblaðið Observer birti myndir af tíu ára gömlum dreng við vinnu við að framleiða föt fyrir verslanir Gap. Drengurinn sagði blaðamanni Observer að fjölskylda hans hefði selt hann verksmiðjueiganda. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík mál koma upp hjá Gap, en stefna fyrirtækisins er að skipta ekki við verksmiðjur þar sem börn starfa. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Talsmenn Gap segja aðeins um eitt tilvik að ræða, verksmiðju sem framleiddi stúlknablússur fyrir fyrirtækið. Drengurinn sagði blaðamanni Observer að hann hefði unnið launalaust í fjóra mánuði, og að hann fengi ekki frelsið á ný fyrr en upphæðin sem fjölskylda hans fékk væri greidd. Þá sagði annar drengur í verksmiðjunni, tólf ára gamall, að börnin væru barin ef yfirmenn héldu að þau legðu ekki nógu hart að sér.
Talsmaður Gap segir að fyrirtækið taki þetta afar alvarlega, reglur fyrirtækisins séu afar strangar og að rannsakað verði hvernig þetta gat gerst. Blússurnar hafa verið innkallaðar, og verða eyðilagðar.