Joey Chestnut, 23 ára Kalíforníubúi, setti í dag nýtt heimsmet í hamborgaraáti þegar hann sporðrenndi 103 hamborgurum á átta mínútum á fjórða heimsmeistaramótinu í þessari íþróttagrein, sem fór fram í Chattanooga í Tennessee.
Gamla metið átti Japaninn Takeru Kobayashi, 97 hamborgara, en það var sett á síðasta móti.
Brad Wahl, aðstoðarforstjóri The Krystal Company, sem stendur fyrir mótinu, líkti metinu í dag við það þegar Roger Bannister hljóp míluna fyrstur á undir fjórum mínútum fyrir hálfri öld en það var talið eitt helsta íþróttaafrek 20. aldar.
Kobayashi, sem hafði unnið þrjú fyrstu mótin, tók ekki þátt vegna þess að hann hefur ekki náð sér eftir endajaxlsdrátt í júní. Kobayashi hefur einnig verið illsigrandi í pylsuáti en Chestnut sigraði hann í árlegu pylsukappáti á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í sumar.