Mynd af málverkinu Síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci hefur verið sett á netið í 16 milljarða pixla upplausn. Er það 1600 sinnum meiri upplausn en mynd úr venjulegri stafrænni myndavél. Með þessu móti geta sérfræðingar rannsakað myndina nákvæmlega og séð smáatriði, sem ekki eru sjáanleg á venjulegum myndum.
Síðasta kvöldmáltíðin er máluð á vegg í kirkju heilagrar Maríu í Mílanó undir lok 15. aldar. Yfir 350 þúsund manns skoða málverkið ár hvert.