Réttarhöld hófust fyrir hæstarétti Bandaríkjanna í dag um hvort olíufélaginu Exxon Mobil beri að greiða 2,5 milljarða Bandaríkjadala í skaðabætur vegna strands olíuskips félagsins, Exxon Valdes, á Prins Williamsundi í Alaska árið 1989. Alls láku yfir 40 milljónir lítra af olíu úr skipinu er það strandaði á rifi og olli það gríðarlegum umhverfisskemmdum.
Dómstóll í Anchorage í Alaska hafði úrskurðað skaðabætur til handa þúsundum sjómanna, Kanadamanna, landeigenda og annarra sem urðu fyrir barðinu á versta olíuleka sem landið hefur staðið frammi fyrir. Áfrýjunardómstóll lækkaði skaðabæturnar í 2,5 milljónir dala árið 1994 en upphæðin er sú hæsta sem fyrirtæki hefur verið dæmt til að greiða í skaðabætur.
Exxon Mobil var ekki sátt við þá niðurstöðu enda telur fyrirtækið að því beri ekki að greiða skaðabætur þar sem það hafi varið gríðarlegum fjárhæðum í hreinsunarstarf á svæðinu. Það er því í höndum hæstaréttar að kveða upp úrskurð um hvort bæturnar séu réttmætar eður ei en ekki er gert ráð fyrir að niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir fyrr en í vor.