Bandaríkin eyða á þriðja þúsund milljarða króna í leyniþjónustu sína

Bush undirritaði lögin sem skipa leyniþjónustunni að opna bókhaldið.
Bush undirritaði lögin sem skipa leyniþjónustunni að opna bókhaldið. Reuters

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur eytt 43,5 milljörðum bandaríkjadala í leyniþjónustu sína á þessu ári sem samsvarar um 2634 milljarða íslenskra króna. Það er sjaldgæft að slíkar tölur séu gefnar upp en forstjóri National Intelligence, Mike McConnell segir þetta heildartölu fyrir allar 16 leyni- og öryggisþjónustur Bandaríkjanna.

Leyniþjónusturnar, þar á meðal CIA og Varnarmálaráðuneytið og Homeland Security Department börðust gegn því að þessi tala yrði gefin upp og töldu það stofna starfsemi þeirra í hættu og telja að andstæðingarnir gætu reiknað út hluta hinnar leynilegu starfsemi þeirra frá sveiflum í fjárhagsáætlun þeirra milli ára.

Samkvæmt lögum sem forseti Bandaríkjanna undirritaði í ágúst síðast liðinn verður að gefa upp hver eyðsla leyniþjónustunnar er en í lögunum er liður sem tekur fram að ef forsetinn getur sýnt fram á það í þinginu að það muni skerða þjóðaröryggi að gefa upp hver eyðslan er þá verður hjá því komist.

Lögunum er ætlað að gera stjórnsýslu Bandaríkjanna gegnsærri og hjálpa þinginu við að hafa yfirsýn yfir rekstur opinberra stofnanna.

CIA hefur einungis tvisvar gefið upp hver eyðsla stofnunarinnar er, 1997 og 1998 þegar eyðslan var 26,6 og 26,7 milljarðar Bandaríkjadala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert