Bandarískt herskip sökkti tveimur sjóræningjaskipum, sem voru að ræna flutningaskipi á alþjóðlegu hafsvæði undan Sómalíu í gær. Annað bandarískt herskip fylgir nú flutningaskipinu áleiðis til Sómalíu. Bæði herskipin eru í sérstökum flota, sem hefur bækistöðvar í Barein og gegnir því hlutverki að reyna að stöðva sjórán.
Þetta mun vera í fyrsta skipti, sem skip úr flotanum fylgir flutningaskipi inn í sómalíska lögsögu. Skipið sendi út neyðarkall í gær vegna sjóræningjanna.
Svæðið við Sómalíu er talin ein hættulegasta siglingarleið heims. Í sumar var danska flutningaskipinu Danica White rænt þar og var áhöfnin í haldi sjóræningja í nokkrar vikur.