Tveir menn sem fundir voru sekir um fíkniefnasmygl voru teknir af lífi í Sistan-Baluchestan héraði í Íran í dag. Annar þeirra, Jomeh Gomshadzehi, var handtekinn með 3.300 kg af ópíum, 84 kg af heróíni og 95 kg af morfíni. Hinn maðurinn, Esmail Barani Piranvand, var handtekinn með 2,5 kg af heróíni.
Í frétt innlendra fjölmiðla kemur fram að Gomshadzehi hafi verið alræmdur í fíkniefnaheiminum en hans helsti markaður var Tyrkland og ríki við Persaflóa. Samkvæmt fréttum í írönskum fjölmiðlum myrti hann lögregluþjón fyrir fjórum árum og flúði síðan til Dubai.
Þekkt er að miklu magni af fíkniefnum er smyglað um Íran frá Pakistan og Afganistan til Tyrklands og Evrópu. Alls hefur 241 verið tekinn af lífi í Íran það sem af er ári fyrir afbrot. Allir hafa þeir verið hengdir en aftökur fara oft fram á opinberum vettvangi. Dauðarefsing liggur við brotum á borð við morð, nauðganir, vopnuð rán, fíkniefnasmygl og hjúskaparbrot.