Hryðjuverkamenn í Madrid dæmdir í 40 þúsund ára fangelsi

Sumir hinna 28 sem kærðir voru fyrir hryðjuverkin hlýða á …
Sumir hinna 28 sem kærðir voru fyrir hryðjuverkin hlýða á uppkvaðningu dómsins. Reuters

Þrír spænskir dómarar hófu að kveða upp dóma í umfangsmesta hryðjuverkamáli í sögu landsins klukkan tíu í morgun en lestur uppkvaðningarinnar hefur staðið yfir í rúma eina og hálfa klukkustund. Einn sakborninga hefur að sögn Sky fréttastofunnar verið sýknaður en fjórir af átta höfuðpaurum hafa verið fundnir sekir og hlotið hámarksrefsingu sem mun vera 40 ár fyrir hvert morð eða ríflega 40 þúsund ára fangelsisvist.

Hinir grunuðu eru sakaðir um röð glæpa, frá því að stela dínamíti úr grjótnámu og að láta hryðjuverkamönnum það í hendur í skiptum fyrir eiturlyf upp í að myrða 101 saklausa Madridarbúa.

Alls voru 28 ákærðir fyrir aðild að sprengjutilræðum í fjórum lestum í mars 2004 er urðu 191 að bana.

Rabei Osman sem er einn hinna ákærðu sem talinn var hafa skipulagt hryðjuverkin í Madrid var sýknaður í morgun. Hann var handtekinn á Ítalíu 2004 og framseldur til Spánar og síðar skilað til tímabundið til Ítalíu 2005 þar sem hann hlaut 10 ára dóm vegna tengsla sinna við hryðjuverkahópa í Evrópu og Írak.

Hann var sakaður um 1755 morðtilraunir og að hafa orðið 101 manns að bana í Madríd en var sem fyrr segir sýknaður.

Sitja ekki lengur en 40 ár í fangelsi
Samkvæmt spænskum lögum er hámarksrefsing sem dæmdur maður getur setið af sér fyrir hryðjuverk 40 ára fangelsi, þannig að þó að sumir hljóti mörg þúsund ára dóma í þessu óvenjulega dómsmáli þá munu þeir aldrei sitja lengur en í 40 ár.

Tuttugu og sjö sakborningar eru karlar og einn er kona. Flestir eru marokkóskir arabar, níu er spænskir. Saksóknari heldur því fram, að sakborningarnir hafi tilheyrt íslömskum öfgahóp sem sótti innblástur til al-Qaeda, en tengdist þeim samtökum ekki beint.

Allir sakborningarnir hafa haldið fram sakleysi sínu en réttarhöldin hafa tekið fjóra mánuði þar sem hlýtt hefur verið á vitnisburð um 300 vitna. Reiknað er með að þeir sem hljóti dóma í dag muni áfrýja þeim.

Frá dómssalnum í Madrid.
Frá dómssalnum í Madrid. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert