Hvítar trufflur fágætar í ár

Ítölsk truffla af stærri gerðinni
Ítölsk truffla af stærri gerðinni AP

Unnendur trufflu-sveppa, eða hallsvepps eða jarðkepps eins og hann heitir á íslensku, þurfa að kafa enn dýpra í vasa sína eftir skotsilfri en oft áður ætli þeir sér að kaupa sveppinn á Ítalíu í ár. Skýringin er afar léleg uppskera og hefur hún ekki verið jafn lítil um árabil. Það þýðir að verðið fer upp úr öllu valdi en sveppurinn þótti dýr fyrir.

Sveppurinn grær í eikarskógum og nærist á trjárótum sem gerir leitina að þeim erfiðari en ella. Hér áður fyrr voru svín notuð til leitarinnar en þau reyndust full gráðug í sveppinn og gat fyrir vikið reynst erfitt að hafa stjórn á trufflu-áti þeirra. Í dag eru því notaðir sérstakir leitarhundar sem ekki éta sveppinn, sem er einkar dýr fæða, að því er fram kom í frétt í Morgunblaðinu á síðasta ári.

Að sögn forstjóra Tartufingros, Andrea Rossano, fyrirtækis sem flytur út hvíta trufflu sveppi, en þeir eru mun dýrari heldur en svartar trufflur, segir að ástandið sé afar slæmt vegna lítillar sprettu í ár og verðið í samræmi við það. Að sögn Rossano er uppskeran í ár um 75% minni heldur en á síðasta ári. Því muni 100 grömm af hvítri trufflu kosta 300-600 evrur, sem er 60-70% hærra verð heldur en í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert