Flugstjórinn á Enolu Gay látinn

Paul Tibbets veifar áður en hann hélt af stað í …
Paul Tibbets veifar áður en hann hélt af stað í leiðangurinn til Hiroshima.

Paul Tibbets, flugstjóri á B-29 sprengjuflugvélinni sem notuð var til að varpa kjarnorkusprengju á japönsku borgina Hiroshima, er látinn 92 ára að aldri. Tibbets, sem var þrítugur að aldri þegar hann hélt í þessa ferð ásamt 11 manna áhöfn, nefndi flugvélina Enolu Gay eftir móður sinni.

AP fréttastofan hefur eftir Gerry Newhouse, vini Tibbets, að hann hafi látist á heimili sínu í Columbus í Ohio eftir skammvinn veikindi. Hann hafi farið fram á að engin útför fari fram og legstaðurinn verði ómerktur. Árið 1995 sagðist hann í viðtali vilja, að ösku sinni yrði dreift yfir Ermarsund, sem hann flaug oft yfir á stríðsárunum.

5 tonna þungri kjarnorkusprengju, sem nefnd var Litli snáðinn, var varpað á Hiroshima að morgni 6. ágúst 1945. Var það í fyrsta skipti, sem kjarnorkusprengju var beitt gegn mönnum. Talið er að 70-100 þúsund manns hafi látið lífið og hundruð þúsunda særst. Þremur dögum síðar var annarri kjarnorkusprengju varpað á Nagasaki í Japan og Japanar gáfust upp nokkrum dögum síðar.

Tibbets sagðist í viðtölum aldrei hafa séð eftir þessari för og litið á hana sem skyldu sína. „Ég sef alltaf vel," sagði hann.

Í samtali við bandaríska rithöfundinn Studs Terkel, sem birtist í breska blaðinu Guardian árið 2002, sagðist Tibbets, sem þá var 87 ára gamall, ekki myndu hika við að fara aðra slíka för ef hann þyrfti. „Ég myndi þurrka þá út. Maður drepur saklaust fólk en það hafa aldrei verið háð stríð án þess að saklaust fólk sé drepið. Ég vildi að blöðin hættu að birta þessa vitleysu: Þú drapst svo og svo marga óbreytta borgara. Þeir voru bara óheppnir að vera á staðnum."

Í viðtalinu lýsti hann sprengingunni þannig: „Þegar ég rétti vélina við fór nefið aðeins of hátt og þegar ég lít upp lýsist himinninn upp með þeim fallegustu bláu og bleiku litbrigðum sem ég hef nokkru sinni séð á ævi minni. Það var stórkostlegt. Ég hef sagt við fólk að ég fann bragðið af því. Hvað meinar þú? spyr það. Þegar ég var drengur og fékk holu í tönnina lét tannlæknirinn einhvers konar blöndu af bómull og blýi í tönnina og barði á það með hamri. Ef maður fékk sér ís og snerti tönn sem hafði verið gert við með þessum hætti, þá fann maður einskonar rafstraum og bragð af blýi. Og ég þekkti það strax."

Reykur eftir kjarnorkusprengjuna stígur upp frá Hiroshima, 6. ágúst 1945.
Reykur eftir kjarnorkusprengjuna stígur upp frá Hiroshima, 6. ágúst 1945. AP
Sprengjuárásarinnar er minnst á hverju ári í Hiroshima.
Sprengjuárásarinnar er minnst á hverju ári í Hiroshima. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert