Ríki við Persaflóa segjast vera reiðubúin að koma á fót samtökum sem hafa það hlutverk að útvega Írönum auðgað úran. Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu er sagður hafa látið þessi ummæli falla, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Saud al-Faisal sagði í samtali við Middle East Economic Digest að slíkt tilboð gæti dregið úr spennunni sem ríkir í þeirri kjarnorkudeilu sem stjórnvöld í Íran eiga við Vesturveldin.
Haft er eftir ráðherranum að stofnuð verði samtök allra þeirra ríkja sem nota auðgað úran í Miðausturlöndum.
Fréttaskýrandi BBC telur hinsvegar ólíklegt að eitthvað verði úr þessu tilboði.
Það svipar til þess sem Rússar lögðu fram í desember árið 2005, en það leiddi til jákvæðra viðræðna milli rússneskra stjórnvalda og stjórnvalda í Íran. Það varð hinsvegar ekki neitt úr tilboðinu.