Ali Babacan, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í dag, að ekki væri hægt að skilgreina árás á bækistöðvar skæruliða Kúrda innan landamæra Íraks sem innrás. Þá sagði hann, að tyrknesk stjórnvöld hefðu efasemdir um heilindi stjórnvalda í Írak um að þau muni stöðva árásir Kúrda yfir landamærin en forseti Íraks er Kúrdi.
Babacan sagði, að niðurstaða fundar Receps Tayyips Erdogans, forsætisráðherra Tyrklands, og George W. Bush, Bandaríkjaforseta, á mánudag, muni ráða miklu um til hvaða aðgerða Tyrkir grípi gagnvart skæruliðum Verkamannaflokks Kúrdistans. Hann sagði, að írösk stjórnvöld hefðu gripið til efnahagslegra aðgerða gagnvart uppreisnarmönnum í norðurhluta Íraks og Tyrkir íhuguðu að hætta áætlunarflugi til þess svæðis.