Mikil flóð í Mexíkó

Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa nú yfir í mexíkóska ríkinu Tabasco en eftir gríðarlega úrkomu undanfarna daga eru þar nú einhver mestu flóð, sem komið hafa í suðurhluta landsins í hálfa öld. Talið er að um 300 þúsund manns séu í sjálfheldu í húsum sínum vegna flóðanna og um 1 milljón manns hefur orðið fyrir búsifjum vegna þeirra.

Stærstur hluti Tabasco er undir vatni og ríkisstjórinn hefur hvatt þá, sem hafa yfirráð yfir bát að taka þátt í björgunaraðgerðunum.

Felipe Calderon, forseti Mexíkó, sagði að ástandið væri grafalvarlegt og um væri að ræða einhverjar mestu náttúruhamfarir, sem dunið hefðu á landinu.

Björgunarmenn nota þyrlur til að bjarga fólki af húsþökum. Ekki er vitað til að neinn hafi látist af völdum flóðanna.

Íbúar í Villahermosa, höfuðborg Tabasco, hlaða flóðgarða úr sandpokum.
Íbúar í Villahermosa, höfuðborg Tabasco, hlaða flóðgarða úr sandpokum. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert