Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að Verkamannaflokkur Kúrdistans (PKK) sé sameiginlegur óvinur Tyrkja og Bandaríkjanna.
Rice sagði eftir fund sinn með ríkisstjórn Tyrklands í Ankara í dag að menn þurfi að sýna stöðugleika og einurð í baráttunni við uppreisnarmenn Kúrda.
Tilgangurinn fundarins var að koma í veg fyrir að Tyrkir hefji meiriháttar hernaðaraðgerðir gegn PKK í norðurhluta Íraks, þar sem uppreisnarmennirnir hafa bækistöðvar.
Tyrkir hafa hótað að senda hermenn yfir landamærin verði þeir ekki varir við það að gripið verði til beinskeyttra aðgerða gegn uppreisnarmönnunum.
Tæplega 50 tyrkneskir hermenn hafa fallið í átökum við uppreisnarmenn PKK í síðasta mánuði og eru stjórnvöld undir miklum þrýstingi frá almenningi í landinu um að svara árásunum með valdbeitingu.