Svíi ákærður fyrir að ljúga upp á tengdason sinn

Sænskur maður hefur verið ákærður fyrir ærumeiðingar en hann greindi bandarískum stjórnvöldum frá því að tengdasonur hans tengdist al-Qaida hryðjuverkasamtökunum. Maðurinn tengist samtökunum á engan hátt en vegna upplýsinganna frá tengdaföðurnum var honum haldið í 11 klukkustundir á flugvelli í Flórída þar sem hann var yfirheyrður. Sænska dagblaðið Sydsvenska Dagbladet greinir frá þessu í dag.

Tengdasonurinn var á leið í viðskiptaerindum til Flórída en eftir yfirheyrslurnar var hann sendur til baka til Svíþjóðar.

Um viðbrögð bandarískra stjórnvalda var að ræða eftir að tölvupóstur barst til alríkislögreglunnar, FBI, þar sem fram kom að maðurinn tengdist að öllum líkindum al-Qaida samtökunum í Svíþjóð, samkvæmt frétt Sydsvenska Dagbladet.

Eftir að tölvupósturinn var rakinn til tölvu tengdaföðurins viðurkenndi hann að hafa sent tölvupóstinn. Sagðist hann hafa gert það vegna þess hve reiður hann væri út í tengdasoninn sem hafði farið fram á skilnað við eiginkonuna.

Tengdafaðirinn sagðist ekki hafa átt von á slíkum viðbrögðum frá bandarískum stjórnvöldum. Maðurinn var ákærður í gær og á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert