Þrýst á Ian Blair að segja af sér

Sir Ian Blair, yfirmaður lögreglunnar í London, sætir nú miklum þrýstingi að segja af sér eftir að kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu í gær að lögreglan hefði gerst brotlegt við lög sem varða öryggi og almannaheill þegar hún skaut Brasilíumanninn Jean Charles de Menezes til bana í júlí árið 2005. Blair hefur lýst því yfir að hann hyggist ekki segja af sér vegna málsins og hefur Gordon Brown, forsætisráðherra landsins, lýst fullum stuðningi við hann. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Talsmenn bresku stjórnarandstöðuflokkanna hafa þó krafist þess að hann axli persónulega ábyrgð á mistökum lögreglunnar. “Þetta var hræðileg röð mistaka og hann er sá einstaklingur sem ber ábyrgðina,” segir Dominic Grieve, talsmaður stjórnarandstöðunnar í dómsmálum. Þá segir hann atburðarásina draga upp háðuglega mynd af hæfni lögreglunnar.

Richard Barnes, leiðtogi samtaka íhaldsmanna í London, sem á sæti í yfirstjórn lögreglunnar, segist þegar hafa farið fram á að aukafundur verði haldinn í stjórninni og að hann muni leggja fram tillögu um það á fundinum að Sir Blair verði leystur frá störfum. "Vilji Sir Ian ekki axla þá ábyrgð sem hann ber getum við greitt atkvæði um vantrauststillögu á hann,” segir hann.

Sir Ian Blair, lögreglustjóri í London, ræðir við fréttamenn eftir …
Sir Ian Blair, lögreglustjóri í London, ræðir við fréttamenn eftir að úrskurður kviðdóms lá fyrir í gær. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert