Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Pakistan hafa verið handteknir ásamt mótmælendum í kjölfar ákvörðunar Pervez Musharrafs, forseta landsins, að setja á neyðarlög í landinu.
Starfandi leiðtogi flokks fyrrum forsætisráðherrans Nawaz Sharif, sem verið hefur í útlegð, var handtekinn. Þá segist stjórnmálamaðurinn og fyrrum krikketstjarnan Imran Khan hafa verið settur í stofufangelsi.
Háttsettir lögmenn hafa einnig verið handteknir t.a.m. formenn lögmannafélaga.
Musharraf hefur varið ákvörðun sína en hann segir að hann geti ekki leyft þjóð sinni að fremja sjálfsmorð.Hann segir að neyðarástand sé í Pakistan vegna ofbeldis uppreisnarmanna og að dómskerfið hafi lamað ríkisstjórnina.
Ákvörðun forsetans kemur á sama tíma og von er á úrskurði frá hæstarétti landsins varðandi það hvort Musharraf hafi verið kjörgengur í forsetakosningunum í október, en þar stóð hann uppi sem sigurvegari.
Fréttavefur BBC skýrði frá þessu.