Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, hefur sakað Pervez Musharraf, forseta Pakistans, um að standa á bak við annað valdarán í landinu. Hún segir að ákvörðun forsetans muni aðeins verða vatn á myllu öfgamanna.
Bhutto sagði í viðtali við bandarísku fréttastöðina CBS að dómarar og stjórnarandstæðingar í Pakistans eigi ekki að taka við yfirlýsingu Musharrafs þegjandi og hljóðalaust.
„Það hefur valdið mér vonbrigðum að Musharraf hafi ógilt stjórnarskrá landsins okkar og sett á neyðarlög,“ sagði hún og sakaði um leið forsetann um að standa aftur á bak við valdarán í landinu líkt og hann gerði árið 1999.
Bhutto segist vera viss um að dómarar og lögmenn landsins muni ekki taka þessu þegjandi og hljóðalaust, og að stjórnarandstæðingar og stjórnmálaleiðtogar muni mótmæla ákvörðun forsetans.
„Þetta mun leiða í óþarfa átaka milli stjórnarinnar og fólksins, og það mun aðeins hjálpa öfgamönnunum sem vilja notfæra sér ástandið sér til framdráttar.“
Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC útilokaði Bhutto ekki þann möguleika að hún og Musharraf geti hafið viðræður á nýjan leik og rætt um að skipta með sér völdum í landinu.
„Ég hef ávallt haldið því fram að ég vil sjá lýðræði og ég vil að íbúar Pakistans geti kosið sér sína eigin leiðtoga,“ sagði Bhutto